Þann 8. febrúar ár hvert er menningardagur Slóvena og hann ber upp á dánardag þjóðskálds Slóvena, France Prešeren .
Íslendingar ákváðu að fara ögn aðra leið og minnast frekar fæðingardags Jónasar sem hefur verið gerður að degi íslenskrar tungu.
France Prešeren (3.desember 1800, Vrba – 8. febrúar 1849, Kranj)
Jónas Hallgrímsson (16. nóvember 1807, Öxnadalur – 26. maí 1845, Kaupmannahöfn)
Gerð hefur verið ritgerð sem ber saman líf, ævistarf, listsköpun og líferni þeirra "bræðra". Höfundur hennar er Marijan Dović
Þegar við berum saman líf skáldanna tveggja, rekumst við fljótt á nokkrar hliðstæður sem virðast ekki bara tilviljun. Ekki nóg með að þeir væru fæddir á svipuðum tíma, þá var ævistarf þeirra, lífshlaup og líferni keimlíkt.
Báðir lifðu og dóu á fyrri hluta nítjándu aldar.
Þeir voru bæði mjög hæfileikarík skáld rómantíska tímans sem urðu að lokum virtustu og áhrifamestu „þjóðskáldin“.
Þeir fæddust báðir í dreifbýli, í þorpum fjarri stórborgum, og vegna hæfileika sinna komust þeir til mennta sem gerði þeim kleift að komast inn í borgaralega millistétt.
Fyrir báða voru menntaárin, fjarri heimahögum, gríðarlega mikilvæg.
Síðar snéru þeir aftur heim (tímabundið eða varanlega) og tóku virkan þátt í starfsemi þjóðarvakningarinnar sem menntamenn.
Báðir hafa þeir með afgerandi hætti mótað einn áhrifamesta bókmenntamiðil síns tíma.
Þeir áttu báðir stóran þátt í uppbyggingu sjálfsmynd þjóðar og þjóðerniskenndar.
Loks voru bæði skáldin bóhem og lögðu stund á gjálífi. Báðir deildu ástríðu fyrir mjög ungum stúlkum og dóu frekar ungir, einmana, vonsviknir og við frekar ömurlegar aðstæður. Lífsstílssjúkdómamar herjuðu á þá báða. Prešeren dó úr skorpulifur en sagt er að Jónas hafi barist við sýfilis og þegar hann dettur niður stiga og fótbrotnar fékk hann blóðeitrun.
Mynd af Prešeren prýddi 1000 tolari peningaseðilinn, en eftir að evran var tekin upp prýðir hann 2 evru myntina. Jónas okkar prýðir 10.000 króna seðilinn.
Prešeren hætti að yrkja á síðari hluta ævinnar vegna þunglyndis og óreglu en hann lést í fátækt 8. febrúar 1849. Enda þótt útförin færi fram með virðulegum hætti í Kranj benti fátt til þess að nafn skáldsins myndi lifa áfram, en í dag er hans skáldskapur stolt þjóðarinnar Sjöunda versið úr ljóði hans “Zdravljica” (A toast) (Skál!) var gert að þjóðsöng Slóveníu árið 1991.
Ég var svo heppin að komast yfir eina þýðingu á ljóðum hans sem Ragnar G. Kvaran gerði og vona að það sé í lagi að láta ljóðið Hvert? fylgja með í tilefni af þessum pistli.
Ég veit að Ragnar hélt mikið upp á kveðskap Prešeren og kannski ekki heldur tilviljun að Ragnar deyr sama dag og hann, 8. febrúar, akkúrat 60 árum seinna.
Blessuð sé minning þeirra.
Kam? – Whither? – Hvert?
Er hvíldarlaust um rúm ég reika
Ræða vinir: „Hvert skal leika?“
Ef svari hafna skýin skær,
Er skvaldur Ránar svari nær.
Þá Hæsti herra stormi skekur
Og sjávarrótið áfram hrekur,
En áttlaust rekur öldu bál,
Sem örvæntingarþraut í sál.
Það eitt mun bezt, að auman mig,
Úr ásýnd hennar halda sig.
-Í þessum heimi engin er
í augsýn hjálp, er gagnist mér. –
þýð./höf – Ragnar G. Kvaran, flugstjóri, f. 11.7. 1927 - d. 8.2.2009)
Comments