top of page
Writer's pictureÁgústa Sigrún Ágústsdóttir

Erazem aka Hrói Höttur

Updated: Aug 2, 2022

Þeir eru margir furðufuglarnir í mannkynssögunni og mig langar að minnast nokkura þeirra sem hafa orðið á vegi mínum í fararstjórninni.


Erazem af Lueg var einn af þessum dularfullu furðufuglum. Hann er jafnan kenndur við kastalann Predjama í Slóveníu og er líklega frægasti einstaklingur í sögu kastalans. Hann hóf búsetu þar árið 1478 fyrir einskonar tilviljun, ég leyfi mér að segja klíkuskap. Hann drýgði tekjur sínar, eins og fleiri samtímamenn hans í sömu stöðu, með því að láta ræna ferðalanga og kaupmenn sem leið áttu hjá kastalanum milli strandhéraðanna og Karniola héraðs og/eða Austurríkis. Hann átti það til að deila fengnum með fátæku fólki sem bjó í nágrenni við kastalann og fékk því viðurnefnið ræniningjariddari og í seinni tíð, Hrói höttur.


Predjama kastali er staðsettur mitt á milli Ljubljana höfuðborgar Slóveníu og strandbæjarins, Portorož. Hann stendur í 123 m hæð og er einstaklega vel varinn frá náttúrunnar hendi þar sem hann hangir utan í klettaborg. Kastalinn er skráður í heimsmetabók Guiness sem stærsti hellakastali heims. Til eru ritaðar heimildir frá 13. öld um eignarhald og erjur um yfirráð en líklega hefur verið einhver búseta þar frá 12. öld. Slíkar erjur virðast hafa einkennt sögu kastalans allt tíð upp frá því.


Árið 1483 átti umræddur Erazem í deilum við hirðina í Vín því hann studdi Ungverja og mun hafa vegið Pappenheim marskálk, náinn ættingja keisarans, í einvígi. Það kom honum í klandur og landstjórinn af Trieste fékk það hlutverk að klófesta hann og hóf því mikið umsátur um kastalann. Þeirri kænsku var beitt að hindra öll aðföng til kastalans í von um að svelta Erazem út. Fljótlega kom í ljós að sú aðferð bar ekki árangur þegar hann henti bitum af steiktu nautakjöti yfir kastalaveggina. Hann hélt uppteknum hætti og með reglulegu millibili lét hann kasta ferskum fiski, nýtíndum kirsuberjum, steiktu lambakjöti og jafnvel heilum sauðum yfir kastalaveggina. Umsátursliðið með Gasper Ravbar í broddi fylkingar gerði sér grein fyrir því að það þyrfti að finna aðra leið til að svæla Erazem út. Ástæðan fyrir því að Erazem gat orðið sér úti um allan þennan mat var sú að til var leynileið inn í kastalann í gegnum hellinn.

Sagnfræðingar hafa mikið velt fyrir sér „óvenjulegum“ kringumstæðum varðandi dauða Erazem. Einn þeirra, sagnfræðingur að nafni Janez Vajkard Valvasor, skrifaði yfirgripsmikið verk sem ber nafnið Dýrð hertoganna af Karniola árið 1689 með nákvæmri útlistun á dauða Erazem.


Ravbar sem fór fyrir umsátursliðinu mútaði þjóni Erazem til að taka þátt í ráðabrugginu. Þjónninn lagði á ráðin þannig að hermenn Ravbars skyldu beina vopnum sínum að þeim stað þar sem húsbóndi hans yrði að fara án fylgdar nokkurs annars og m.a.s. -„Tyrkjasoldáninn sjálfur færi ekki nema einn”. Þegar svikuli þjónninn hafði kveikt á kerti til merkis um það að húsbóndi hans sæti á kamrinum ruddist fallbyssukúla í gegnum vegginn og þar með voru dagar hans taldir.


Gröf Erazem er sögð vera við linditréð við þorpskirkjuna sem stendur rétt við kastalann. Ein sagan segir að hann hafi iðulega hvílt sig undir linditrénu og þess vegna sé hann jarðaður þar. Önnur saga segir að linditrénu hafi verið plantað þar af unnustu hans og að hún hafi heimsótt gröfina í mörg ár eftir að hann var drepinn.


Linditréð stendur enn, rúmum 500 árum seinna, þó svo að það hafi orðið fyrir eldingum og líti illa út, þá tórir það enn. Minnir mig einna helst á tréð í ævintýri H.C. Andersen um Eldfærin.

Það er ævintýri líkast að heimsækja þennan stað og alltaf er verið að gera meira af því að glæða söguna um Erazem lífi. Í júlí er haldin riddarahátið þar sem miðaldastemmingin tekur yfir eina helgi. Uppáklæddir prinsar og prinsessur spranga um og dularfullir karakterar eru á sveimi. Sviðsetning á fallbyssuskotinu sem varð Erazem að bana. Bogaskotfimi og burtreiðar, sverðabardagi með öllu sem því tilheyrir. Um kvöldið eru svo eldarnir kveiktir og stuðið stendur fram undir morgun.

164 views0 comments

Recent Posts

See All

Kvarantína

Comments

Rated 0 out of 5 stars.
No ratings yet

Add a rating
bottom of page