top of page

Dreng-faraó

Writer's picture: Ágústa Sigrún ÁgústsdóttirÁgústa Sigrún Ágústsdóttir

Updated: 1 day ago

Nú hef ég orðið svo fræg að sjá alvöru múmíu og það ekki af ómerkari manni en Tútankamon.

Það er einhver óskiljanlegur hrollur með sáldri af spenningi sem fer um mann þegar maður gengur ofan í jörðina að skoða 3.300 ára gömul grafhýsi. Það er kannski rangnefni að kalla þessa hinstu hvílu grafhýsi, því þetta eru klárlega kjallarar, allt niður í móti, inn í hið allra heilagasta. Grafhvelfing væri nær lagi.


Nafnið Tútankamon hringir kannski ekki mörgum bjöllum en þegar myndin af helgrímunni hans er dregin fram kveikja flestir á perunni. Hér er mynd sem einn farþegi í ferð með okkur til Kairó náði af henni. Ég reyndi að stelast en þar stóð vörður við glerkassann og sagði í sífellu. "No photos, no photos." - Myndin til vinstri er líklega sú nýjasta sem náðst hefur af grímunni sem er að finna í egypska safninu í Kairó. Þar á hún ennþá heima um hríð, en líklega verður hún flutt í nýja þjóðminjasafnið sem verið er að opna.



Nafnið hans er reyndar ritað með mismunandi hætti á íslensku, ýmist Tútankamon, eða Tútankhamon, jafnvel Tútankhamun. Drengurinn var upphaflega skírður Tútank Aten (lifandi ásjóna Atens (sólarinnar)). Það þótt ekki lengur við hæfi þegar fjölgyðistrúin var tekin aftur upp, eftir að faðir hans dó. Hann var því nefndur eftir gamla höfuðguð konungsættarinnar, Amon og nafn hans breyttist í Tútank Aamon. Hann er í daglegu tali kallaður gælunafni sínu Tut. Já, væri það ekki bara Dúddi á íslensku?


Fundurinn árið 1922

Tútankamon var krýndur faraó yfir öllu Egyptalandi þegar hann var 8 eða 9 ára gamall og ríkti þangað til hann dó, aðeins 18 eða 19 ára, á árunum 1336-1327 (gæti verið 1332 -1323) fyrir Krist þegar 18. konungaveldið var við lýði.


Gröf hans hafði lengi verið leitað en 4. nóvember 1922 fannst hún loksins og var það Bretinn Howard Carter sem fann gröfina. Erlendir fjölmiðlar fylgdust vel með og málið vakti gríðarmikla athygli, sérstaklega í Bandaríkjunum. Það greip um sig einskonar Tútankamons æði. Danslög voru samin. Egypsk mótív urðu vinsæl í hönnun o.fl.


Sjónvarp og podcast

Vera Illugadóttir fjallar um þennan fund og aðkomu Howard Carter í þætti sínum Í ljósi sögunnar Gröf Tútankamons þar sem aðdragandinn er rakinn á skemmtilegan og leikrænan hátt.


Einnig hafa verið sýndir skemmtilegir leiknir þættir um þennan mesta fjársjóð sem fundist hefur í egypskri gröf, því yfir 5.000 gripur voru skráðir. Þættirnir eru fjórir talsins, frá árinu 2016 og heita Tutankhamun.


Hægt er að finna þá á einhverjum veitum, t.d. IMDb. Það eru flottir leikarar í þessari mynd, Sam Neill og Max Irons. Eiginlega bara hið skemmtilegasta áhorf. Smá sýnishorn.


Aðrar stórstjörnur, Ben Kingsley og Nonso Anozie (lék í Game of Thrones), prýða svo þessa tveggja þátta seríu sem heitir einfaldlega TUT og er frá árinu 2015. Hægt er að kaupa seríuna á amazon á DVD diskum. Ekki virðast þessir Tut þættir vera sögulega nákvæmir hvað varðar holdlegt atgerfi Tútankamons. Í þáttunum er Tut sýndur sem herskár bardagamaður, lipur og fjarska fríður. Miðað við niðurstöður rannsókna á múmíu Tútankamons þá er sú túlkun mjög langt frá sannleikanum.


Hver var þessi drengur?

Foreldrar hans voru systkini, mikil innræktun í gangi á þessum tíma og hann leið fyrir það. Hann var hávaxinn miðað við meðalhæð þess tíma, 180 cm, en meðalhæð þá var um 160 cm. Hann var holgóma með hryggskekkju, allir 7 hálsliðirnir samvaxnir og hann gat tæplega hreyft höfuðið nokkuð. Vinstri fóturinn vanskapaður og hann gekk við staf.


Faðir hans var einn umdeildasti faraó í sögu Egyptalands, hinn sérvitri Akkenadem sem var við völd í ca. 20 ár og tók upp eingyðsitrú sem hverfðist um sólguðinn Aten. Kona hans var hin fræga Nefertiti en hún var ekki móðir Tútankamons. Líklegt er talið móðir hans hafi verið önnur í röð eiginkvenna Akkenadem, en algengt var að faraóar ættu margar konur sem skipuðu mismikinn virðingarsess innan flókinna fjölskyldutengsla. Auk þess er talið að kona sú hafi verið systir eiginmanns síns, í það minnsta hálfsystir.


Tútankamon giftist svo líka hálfsystur sinni, Ankhesenpaaten, sem var nokkrum árum eldri. Þau systkinin eignuðust 2 dætur sem fæddust annað hvort langt fyrir tímann eða með ættarmein og lifðu ekki lengi.


Ráðgjafar fóru með stjórn á meðan að dreng-faraóinn var svona ungur og þeir hurfu frá eingyðistrú sem Akkenadem hafði innleitt og innleiddu aftur fjölgyðistrú. Í hans valdatíð færðist þó aftur ró yfir Egyptalands, hof annarra guða voru endurbyggð, prestar sneru aftur til starfa sinna.


Tútankamon hafði verið faraó í 9 ár, ca. 18 ára gamall þegar hann dó, 1323 f.Kr.  Það var frekar sviplegt, því að hann fótbrotnaði og fékk sýkingu sem dró hann til dauða. Hann var með veikt ónæmiskerfi vegna tíðra malaríusýkinga. Úrkynjun konungsættarinnar gæti hafa spilað einhverja rullu.


Hafist var handa við að smíða grafhýsi í Konungadalnum fyrir Tútankamon á meðan hann var enn á lífi og eins og hefð var fyrir á þessum tíma. Að ljúka við byggingu slíkra grafa gat tekið 20-30 ár, Marht bendir til þessi að flýta hafi þurfti verkinu því faraóinn ungi dó eftir aðeins 9 ára á valdastóli, þá 18 eða 19 ára gamall. Málverkin er álitin hroðvirknisleg og málningin hefur ekki fengið að þorna.


Múmían hefur verið rannsökuð i þaula. Höfuðkúpan er brotin, en talið líklegt að það hafi gerst eftir dauða hans, þegar verið var að smyrja hann. Vísbendingar eru einnig um sýkingar eftir beinbrot og sjúkdóma eins og malaríu.



Ólíkt mörgum öðrum gröfum sem fundist hafa í Konungadalnum, sem eru orðnar yfir 60 talsins, fær Tútankamon að hvíla í sinni gröf og er til sýnis í glerkistu þegar komið er í heimsókn. Flestar aðrar múmíur hafa verið færðar á Egypska safnið í Kairó, en eru nú á leiðinni á nýja þjóðminjasafnið sem er smátt og smátt verið að taka í notkun.


Árið 2022 var glæsileg athöfn í Kairó sem kölluð var hin konunglega skrúðganga faraóanna, þar sem 22 múmíur voru fluttar frá Egypska safninu sem er í miðbæ Kaíró yfir í Þjóðminjasafnið. Hver faraói/múmía var flutt í sérútbúnum bíl sem búið var að gullhúða og merkja með nafni faraóanna. Heimamenn flykktust út á götur borgarinnar til að fylgjast með bílalestinni og þótti þetta vel lukkaður atburður.




Heimildir víðsvegar af veraldarvefnum, m.a. hér:



Comments

Rated 0 out of 5 stars.
No ratings yet

Add a rating
Uppruninn
  • Facebook
  • Instagram

Flandrr ferðamiðstöð varð til sem umgjörð og samnefnari fyrir ferðablæti Ágústu Sigrúnar.

 

Í hinu alræmda kófi magnaðist ferðaþráin mjög mikið og Ágústa ákvað að bjóða landsmönnum í sýndarferðalög í gegnum Zoom. Heimsferðir stukku strax á þessa hugmynd og þegar upp var staðið höfðu orðið til 10 sýndarferðalög og yfir 10.000 manns höfðu tekið þátt.

Í framhaldinu fannst henni eðlilegt að útfæra allan þann fróðleik sem hún hafði bætt við sig með einhverjum hætti og pistlaskrifin hófust. Í kjölfarið urðu til hugmyndir að ferðum sem mótast af hennar áhugasviði sem eru hreyfing, menning, tónlist og léttleiki.  

 

Heimsferðir eru söluaðili ferðanna og sjá um bókanir, innheimtu, skilmála og tryggingar skv. ferðakskrifstofuleyfi nr. 2022-028 gefnu út af Ferðamálastofu.​

Flandrr ferðamiðstöð

© 2023 Flandrr. Website by CC Website Design.

bottom of page