top of page
2025 Hreyfiferð um söguslóðir á Norður-Ítalíu

18. - 25. maí 2025

Borgin Gorizia sem dvalið verður í, á sér einstaka sögu og er útnefnd menningarborg Evrópu árið 2025, European Capital of Culture - ECOC.

Skilyrði fyrir útnefningunni eru m.a. að standa vörð um og efla fjölbreytileika menningarheima í Evrópu og varpa ljósi á sameiginleg einkenni. Þar kemur borgin Gorizia eða Nova Gorica eins og hún heitir á slóvensku, sterk inn. Það verður því mikið líf allt um kring og ferðamálayfirvöld héraðsins bjóða þennan fyrsta hóp frá Íslandi velkominn í heimsókn og hafa lagt okkur lið með skipulag.

unnamed (7).png

Markhópurinn fyrir þessa ferð er fólk á besta aldri, sem vill létta hreyfingu í fríinu í bland við að kynna sér sögu og atburði sem hafa átt sér stað á landamærunum. Saga svæðisins er margslungin og náttúrufegurðin einstök. 


Göngudagarnir eru fimm, ýmist hálfir eða heilir dagar þar sem við skoðum okkur um, ýmist í himneskum fjallasölum og hásléttum, undurfögrum dalsbotnum eða á söguslóðum. Eins heimsækjum við borgir og bæir eins og Trieste, Aquileia, Sagrado, Grado. Kastalar af ýmsum stærðum og gerðum verða áeinnig á vegi okkar reglulega. 


Andrúmsloftið í Gorizia er með austurrísku yfirbragði sökum fyrri yfirráða Habsborgara á þessum slóðum, en austurrísk-ungverska heimsveldið var hér við völd fram að fyrra stríði. Svæðið var svo innlimað í Ítalíu árið 1918. Hér var þungamiðja átaka á tímum fasista og einnig í seinni heimsstyrjöldinni. Bænum var skipt á milli stríðandi fylkinga og reistur var múr, einskonar tákn um aðskilnað austurs og vestur í kalda stríðinu.


Árið 2004, þegar Slóvenía gekk í Evrópusambandið, voru landamærin lögð niður og nú er fyrri aðskilnaður orðin að sameiningartákni. Þessir samvöxnu bæir hafa fengið útnefninguna Menningarborg Evrópu 2025, einmitt vegna þessa. Sambúð þessara tveggja bæja sem áður aðgreindi stór „Berlínar-múr“ er núna fyrirmynd af friðsamlegra samskipta og samstarfs.


Annars er Gorizia mikil listaborg og margt hægt að finna sér til dundurs. Stutt er í gamla bæinn, kastalann og fjölmörg söfn sem þar er að finna. Þaðan er líka auðvelt að komast í þær gönguferðir sem skipulagðar eru á meðan á dvöl stendur.

Hotel Gorizia Palace er í Best Western hótelkeðjunni og er nútímalegt 4 stjörnu hótel staðsett í hjarta borgarinna Gorizia.  Herbergin eru nýuppgerð og  innréttuð í einföldum stíl. Hótelið leggur áhersla á sjálfbærni og rekin er græn stefna í umhverfismálum.


Útbúnaðarlisti

Góðir en léttir gönguskór, utanvegaskór ættu að duga fyrir flesta. Ökklastuðningur alltaf góður samt. Göngustafir fyrir þá sem vilja. Hattur eða eitthvað til að hylja höfuðið er alveg nauðsyn, ásamt góðum sólgleraugum og sólarvörn. Þægilegur göngupoki og vatnsbrúsi til að fylla á. Annar búnaður er undir hverjum og einum komið og hvað hentar best persónulega.

Heimsferðir er með ferðina í sölu og sér um bókanir, innheimtu, skilmála og tryggingar skv. ferðakskrifstofuleyfi nr. 2022-028 gefnu út af Ferðamálastofu.


Verð frá 294.900 kr. mann í tvíbýli,

Verð fyrir einbýli 379.900 kr. 


HÉR er hægt að taka frá sæti og bóka tvíbýli

HÉR er hægt að taka frá sæti og bóka einbýli


Dagskrá er útgefin með fyrirvara um smávægilegar breytingar. Ítarlegri dagskrá með tímasetningum verður gefin út þegar nær dregur. 


Fararstjóri er Ágústa Sigrún Ágústsdóttir. Hún hefur mannauðsstjórnun og markþjálfun að aðalstarfi en ræturnar hennar eru í söng og fararstjórn sem hún sinnir jafnhliða öðrum störfum. 


Ágústa er menntaður leiðsögumaður frá Leiðsöguskóla Íslands og hefur unnið við fararstjórn á Ítalíu, Króatíu og Slóveníu yfir 20 ár og hún hefur einnig starfað sem leiðsögumaður á Íslandi fyrir ítölsku- og enskumælandi ferðamenn.


Innifalið í ferðinni: Flug með Play air til Feneyja ásamt innritaðri tösku. Hótel í 7 nætur með morgunverði. Allur akstur og lestarmiðar skv. dagskrá. Aðgangur í kastala. Aðgangur í kirkju í Aquileia. Nestispakki. Vínsmökkun. Staðar- og gönguleiðsögn skv. dagskrá og íslensk fararstjórn


Ekki innifalið: Ferðir á frjálsum dögum. Gistináttaskattur sem greiddur er á hótelinu.

1. dagur – 18. maí – Komudagur

Flogið til Feneyja með PLAY kl. 14:50 og lent kl. 21:10. Þaðan er tæplega tveggja tíma akstur á hótelið í Gorizia. Við ættum að vera komin í ból rétt fyrir miðnætti.

2. dagur – 19. maí – Göngudagur um Collio

Lengd: ca. 10,5 km - hækkun 217m - lækkun 212 m.

Við byrjum daginn rólega en förum svo í rútu til þangað sem við byrjum gönguferð dagsins um nærliggjandi þorp, hlíðar og vínekrur. Við kynnumst fjallahringnum í kringum Gorizia sem er alveg á ystu endimörkum héraðsins, þar sem áður voru landamæri. Collio svæðið einkennist af litlum þorpum, kastölum og húsum sem standa í víðfeðmum vínekrum. Þar eru framleidd verðmæt vín, helst Ribolla, Sauvignon og Pinot sem eru meðal bestu ítölsku hvítvínanna en Refosco er mjög vinsælt rauðvín hér.

Við heimsækjum toppframleiðanda, skoðum vínekruna, fræðumst um vínin og fáum svo vínsmökkun af betri gerðinni.

unnamed.jpg
3. dagur – 20. maí – Borgarferð til Trieste og í Miramare kastala

Hálfsdagferð. Í dag er ferðinni heitið til Trieste með lest. Til að ná utan um Trieste þarf fyrst að koma við á San Giusto hæðinni sem býður upp á stórkostlegt útsýni. Þegar fríhöfnin var staðfest árið 1719 byrjar nýtt blómaskeið í Trieste. Auður athafnamanna og borgarastéttin sjá til þess að hér rísa hallir í Teresía borgarhlutanum og við Piazza d‘Italia. Þá voru einnig byggðar kirkjur fyrir flestar kirkjudeildir í borginni og uppgangurinn var mikill yfir næstu áratugina.

Eftir skoðunarferð og frjálsan tíma í Trieste förum við og skoðum ævintýrakastalann Miramare sem stendur yst á Grignano-nesinu. Kastalinn er umkringdur fallegum garði þar sem hægt er að slaka á og njóta gróðursins. Einnig fáum við að skoða hallarkynnin sem skarta enn upprunalegum húsgögnum.

unnamed (1).jpg
4. dagur – 21. maí – Á slóðum fyrra stríðs

Lengd: ca. 21 km - hækkun 450 m - lækkun 440 m.

Heilsdagsferð á stríðssöguslóðum í fögru landslagi. Við tökum lest til Sagrado og þaðan fikrum við okkur upp á Karst kalksteinshásléttuna. Þar göngum við fram hjá skotgröfum og skýlum sem þræða sig eftir landslaginu á þessum slóðum í suðausturhluta Friuli. Hér var fyrsta víglínan í fyrri heimsstyrjöldinni. Á svæðinu eru margar vel faldir skotgrafir sem notaðir voru í stríðinu. Sumum er enn haldið óbreyttum.

Mjög áhugaverð og lærdómsrík upplifun. Við tökum með okkur nestispakka og drekkum í okkur söguna um leið og við göngum um svæðið.

unnamed (4).png
5. dagur – 22. maí – Fusine vötnin og Slizza gilið

Fyrri hluti: Lengd: ca. 7.5 km - hækkun 170 m - lækkun 170 m
Seinni hluti: Lengd: ca. 2 km – hækkun 80 m – lækkun 80 m

Heilsdagsferð. Við förum með rútu þangað sem ferðin dagsins hefst við Fusine. Tvö vatnasvæði frá fyrri jökulskeiðum sem eru samtengd neðanjarðar og eru náttúruundur út af fyrir sig. Hér verður oft mjög kalt á veturna og vötnin frjósa.

Eftir göngu þar um slóðir förum við aftur í rútuna og færum okkur til Tarvisio til að feta stíginn eftir Slizza gilinu. Þetta er stórkostlegur náttúruslóði sem liggur í 1 ½ klst. lykkju. Á niðurleiðinni göngum við meðfram skóginum og að uppsprettu Slizza lindarinnar.

Leiðin heldur áfram meðfram gljúfrinu sem lækurinn hefur í mótað eftir þægilegum göngubrúm sem leiða okkur krókaleiðir í gegnum helli og göng sem grafin voru með höndunum á 19. öld.

unnamed (2).jpg
6. dagur – 23. maí – Frjáls dagur

Hægt að taka því rólega í bænum okkar. Fararstjóri verður með tillögur að dægradvöl fyrir þá sem vilja. Mögleiki að skipuleggja sérstaka landamæraferð þar sem við heyrum um einstaka sögu bæjarins þar sem ný landmæri hafa verið dregin með reglulegu millibili. Hægt að skella sér til Udine í borgarferð.

unnamed (3).jpg
7. dagur – 24. maí – Soča áin og dalurinn

Lengd: ca. 9 km – hækkun 566 m – lækkun 562 m.

Heilsdagsferð. Við förum með rútu á upphafspunkt göngunnar. Áin Soča, sem hefur sérstakan smaragðsgrænan lit, er talin vera ein fallegasta áin í Evrópu. Hún rennur í flúðum og fossum, eftir þröngum klettagiljum sem hún hefur myndað í gegnum aldirnar. Áin og þverárnar sem renna í hana er leiksvæði fyrir vatnaíþróttir, s.s. kajak og flúðasiglingar, en svæði er einnig einstakt fyrir unnendur náttúrufegurðar því litadýrðin er mögnuð.

Frægast íbúi Soča árinnar er silungur sem ber saman nafn og laðar að veiðimenn frá öllum heimshornum. Í fjalllendinu fyrir ofan þessa fegurð var vettvangur stærstu fjallabardaga sögunnar í fyrri heimsstyrjöldinni.

unnamed (4).jpg
8. dagur – 25. maí – Fjölbreyttur dagur á leið á flugvöllinn í Feneyjum

Lengd: ca. 2.5 km með mjög lítilli hækkun/lækkun

Við kveðjum Gorizia og höldum í áttina að flugvellinum í Feneyjum en byrjum á því að rölta um Rilke stíginn sem býður upp á dásamlegt útsýni yfir Trieste flóann og tengir Sistiana við Duino. Stígurinn heitir eftir ljóðskaldinu R.M. Rilke, sem í byrjun síðustu aldar var gestur í kastalanum og skrifaði þar meistaraverk sitt, Duino tregaljóðin.

Feneyskur stíll er ráðandi í strandbænum Grado sem stendur á eyju sem nú er tengd landi og er oft kölluð sólareyjan, vegna þess að strandlengjan teygir sig 3km í hásuður og þar slær aldrei skugga á. Þar fáum við okkur hádegisverð.

Að lokum komum við í hina sögufrægu borg Aquileia sem var ein af stærstu og auðugustu borgum snemma í Rómarveldi, þar til hún var lögð í eyði af Atla Húnakonungi. Aquileia er talin vera stærsta rómverska borgin sem enn á eftir að grafa upp en hún er á heimsminjaskrá UNESCO. Hér var líka mjög mikilvægt stjórnsvæði kaþólsku kirkjunnar. Við skoðum dómkirkjuna og grafhvelfinguna þar með frægu mósaík-gólfi sem á rætur sínar að rekja til 4. aldar.

Flugtak frá Feneyjum kl. 22:10 og lent í Keflavík um 00:45.

unnamed (5).png

unnamed (5).png

unnamed (5).png
bottom of page